Af hverju get ég aldrei vandað mig...
Stundum er allt ómögulegt. Í gær tók ég mig til og dró út úr vinnustofunni bunka af dúkristum sem hafa verið að spretta fram undanfarið og ég hef haft mikla ánægju af að gera. Með ærinni fyrirhöfn stillti ég upp þrífæti og nýju myndavélinni. Fann góða birtu og prófaði mig áfram með leiðir til að ljósmynda verkin. Þegar þessu undirbúningsbrasi var lokið var hver dúkristan á fætur annarri sett í fókus og smellt af. En úff hvílíkt og annað eins drasl! Hvað er ég að pæla! Af hverju get ég aldrei vandað mig!? Hvað er ég að stíga á stokk með þessi snifsi? Ekki eitt einasta í lagi! Alltaf eitthvað út fyrir einhversstaðar, pappírinn rifinn eða ataður prentkámuðum fingraförum. Teikningin klunnaleg. Prentliturinn of þunnur eða þykkur. Aldrei get ég gert tvær eins, heldur alltaf ný og ný tilraun, á ekki grafík að vera allavega nokkur eintök eins? Hvað er þetta eiginlega sem ég dreg hérna fram í dagsljósið? Hvernig stóð á gleði minni við að gera þetta? Virkar þetta bara inná vinnustofunni? Hvað er í gangi?
Ég var alveg örvingluð en kláraði að mynda hvert verk fyrir sig með þessa ömurð innra með mér. Ég ákvað að láta ekki hugfallast en sofa á þessu. Viti menn í dag líður mér miklu betur eftir að hafa farið í gegnum efnið í tölvunni og komið því í tölvutækt form. Horfðist í augu við allar myndirnar aftur og er sáttari. Ég er bara svona, get ekki vandað mig. Það er minn karakter og mínar myndir, grófar og allskonar óvæntir hlutir í gangi. Það er heldur enginn að biðja um þessar myndir né segja mér hvernig þær eiga vera. Ég ræð og geri eins vel og ég get. Ég er bara ánægð með mig í dag og ætla bera þetta á borð fyrir alheiminn á instagram @ melros_plants_and_prints